Handbolti

Fyrirliðaparið áfram í Eyjum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Magnús Stefánsson og Ester Óskarsdóttir.
Magnús Stefánsson og Ester Óskarsdóttir. vísir/andri marinó/valli
Ester Óskarsdóttir og Magnús Stefánsson, fyrirliðar ÍBV í Olís-deildum kvenna og karla, hafa framlengt samninga sína við félagið til eins árs.

Lengi var haldið að Magnús og Ester, sem eru trúlofuð og eiga eina dóttur, ætluðu að róa á önnur mið, en nú er ljóst að þau verða að minnsta kosti eitt tímabil til viðbótar í Vestmannaeyjum.

Ester er uppalinn hjá ÍBV og sneri aftur heim til Eyja árið 2010, en Magnús gekk í raðir ÍBV ári síðar. Hann hefur áður leikið með KA, Akureyri og Fram.

Ester varð markahæsti leikmaður ÍBV á leiktíðinni ásamt Veru Lopes, en báðar skoruðu 22 mörk. Þetta kemur allt fram á vef Eyjafrétta.

Magnús hefur verið í lykilhlutverki hjá ÍBV undanfarin ár, en liðið kom upp úr 1. deildinni fyrir tveimur árum, varð Íslandsmeistari í fyrra og bikarmeistari í ár.

Eyjamenn náðu ekki að verja Íslandsmeistaratitilinn, en þeir voru sendir í sumarfrí af Aftureldingu í átta liðaúrslitum Íslandsmótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×