Lífið

Góð hlaup fyrir byrjendur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Elísabet Margeirsdóttir og litahlaupið í Beirút.
Elísabet Margeirsdóttir og litahlaupið í Beirút. vísir/stefán/getty
„Hlaupasumarið byrjaði með Víðavangshlaupi ÍR sumardaginn fyrsta og svo fylgdi Vormaraþon Félags maraþonhlaupara strax í kjölfarið en það er alltaf vinsælt hlaup hjá langhlaupurum. Ég finn núna strax fyrir auknum áhuga hjá fólki og margir farnir að plana sumarhlaupin og ég er gríðarlega spennt fyrir hlaupasumrinu. Helst vildi ég taka þátt í sem flestum hlaupum og þá helst náttúruhlaupunum,“ segir Elísabet Margeirsdóttir en um þessar mundir eru landsmenn farnir að dusta rykið af hlaupaskónum og hjólunum fyrir sumarið.

Meðal nýjunga í sumar verður einmitt Mt. Esja Maraþonið sem verður hluti af Mt. Esja Ultra hlaupinu sem fer fram í fjórða sinn þann 20. júní og er Elísabet ein skipuleggjenda þess hlaups.

„Við erum mjög stolt að kynna fyrsta fjallamaraþon landsins sem verður veisla fyrir alla náttúruunnendur og ævintýrafólk. Keppendur munu hlaupa mjög fjölbreytta 42 km langa leið við rætur fjallsins og í fjallinu sjálfu. Það verður spennandi að fylgjast með hlaupurum og við hvetjum áhugasama um að koma og fylgjast með við Esjurætur,“ segir Elísabet.

„Einnig er ég mjög spennt að prófa The Color Run hlaupið og ætli það verði ekki einhvers konar djamm hlauparans sem dregur alla vini og fjölskyldu með til að kynna þessu frábæru hreyfingu og útivist. Það er alla vega góð tilbreyting að fara í stórt hlaup með fullt af fólki þar sem einblínt er á gleði og gaman og á sama tíma tekið smá frí frá klukkunni og hraðamælingum.“

Elísabet segir að The Color Run sé sérstaklega spennandi fyrir þá sem gera ekki mikið af því að hlaupa og því fullkomið hlaup til að prófa. „Ég mun hvetja alla sem ég þekki til að skella sér í þetta hlaup og þá sérstaklega þá sem eru ekki alveg komnir af stað en langar að prófa.“

„Fimm kílómetrar er vegalengt sem getur hentað öllum og fyrir þá sem eru rétt að byrja væri gott að skokka í 1-2 mínútur í einu, ganga á móti í 3-5 mínútur og stoppa svo í stutta stund á öllum litastöðvunum og auðvitað spjalla við þá sem maður hittir. Allir byrjendur ættu að byrja að hlaupa á spjallhraða og litahlaupið er ábyggilega frábært hlaup til að æfa sig að vera á spjallhraðanum,“ segir Elísabet að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×