Erlent

Carly Fiorina býður sig fram til forseta

Samúel Karl Ólason skrifar
Carly Fiorina.
Carly Fiorina. Vísir/AP
Carly Fiorina tilkynnti nú í morgun að hún ætlaði að sækjast eftir tilnefningu Repúblikana til forsætiskosninga í Bandaríkjunum. Hingað til er hún eina konan af mörgum frambjóðendum Repúblikana. Fiorina sagði frá ákvörðun sinni í sjónvarpsviðtali þar sem hún gagnrýndi Hillary Clinton.

„Ég dái Hillary Clinton, en henni er greinilega ekki treystandi,“ sagði hún samkvæmt AP fréttaveitunni. Hún sagðist einnig þekkja það að taka mikilvægar ákvarðanir á ögurstundu. Fiorina, sem er sextug, byrjaði feril sinn hjá AT&T sem ritari. Samhliða vinnu kláraði hún meistaranám og varð á endanum einna æðstu yfirmönnum fyrirtækisins.

Hún varð síðan framkvæmdastjóri Hewlet-Packard árið 1999, en var rekin árið 2005 eftir samruna HP við Compaq. Í myndbandi á heimasíðu sinni segir Fiorina að stofnendur Bandaríkjanna hafi ekki ætlað til þess að sérstaka stétt stjórnmálamanna. Hún segir Bandaríkjamenn þreytta á pólitíkusum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×