Óttar Bjarni Guðmundsson, miðvörður Leiknis, fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks í leik liðsins gegn Stjörnunni á Samsung-vellinum í gær. Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli en nýliðar Leiknis eru komnir með fjögur stig í Pepsi-deildinni.
Í fyrstu var óttast að Óttar væri brotinn en nú er ljóst að svo er ekki.
„Hann fékk slæmt högg á legginn og það er grunur um beinmar en hann er ekki brotinn,“ sagði Davíð Snorri Jónasson, annar þjálfara Leiknis, í samtali við Vísi í morgun.
Að sögn Davíðs fer Óttar í frekari skoðun seinna í dag og þá kemur betur í ljós hvers eðlis meiðslin eru og hversu alvarleg þau eru.
„Menn fóru strax að spyrja sig í gær hvort hann væri brotinn en það er alveg klárt að svo er ekki. Við vitum hvað betur síðar í dag hversu langan tíma hann þarf til að jafna sig,“ sagði Davíð ennfremur.
Leiknir sækir ÍBV heim í 4. umferð Pepsi-deildarinnar á miðvikudaginn.
