Erlent

Bandarískir hermenn felldu háttsettan leiðtoga ISIS í Sýrlandi

Samúel Karl Ólaosn skrifar
Bandarískir sérsveitarmenn á æfingu.
Bandarískir sérsveitarmenn á æfingu. Vísir/AFP
Bandarískir sérsveitarmenn gerðu í nótt árás á búðir háttsetts leiðtoga Íslamska ríkisins í Austur-Sýrlandi. Tilgangur árásarinnar var að handsama Abu Sayyaf sem féll í bardögum við hermennina, en eiginkona hans var handsömuð. Þetta kom fram í tilkynningu frá Pentagon í morgun.

Þetta er einungis í annað sinn sem vitað er til þess að bandarískir hermenn hafi farið inn í Sýrland. Hitt skiptið var þegar hermenn reyndu að bjarga bandarískum gíslum ISIS, sem höfðu verið færðir áður en árásin var gerð.

Sayyaf stýrði sölu ISIS á olíu og gasi, sem og öðrum fjárhagslegum atriðum. Þar að auki er hann sagður hafa tekið þátt í skipulagningu hernaðaraðgerða ISIS.

Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafi heimilað árásina. Enginn af hermönnunum féll í árásinni, en á vef CNN segir að um tólf vígamenn hafi verið felldir.

AP fréttaveitan segir frá því að hermennirnir hafi bjargað konu sem tilheyrir minnihlutahópi Jadsída úr haldi hjónanna Abu og Umm Sayyaf. Svo virðist sem að hún hafi verið þræll þeirra hjóna en ISIS handamaði hundruð Jadsída í fyrra.

Á vef BBC segir að fjölmiðlar í Sýrlandi hafi sagt fréttir af því að sýrlenski herinn hafi fellt minnst fjörutíu vígamenn og þar á meðal „olíuráðherra ISIS“ í hernaðaraðgerð í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×