Enski boltinn

Rooney ekki með United gegn Arsenal

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rooney hitar upp með United fyrir leik liðsins á dögunum.
Rooney hitar upp með United fyrir leik liðsins á dögunum. vísir/getty
Wayne Rooney, framherji Manchester United, verður ekki með United gegn Arsenal í stórleik helgarinnar í enska boltanum, en liðin mætast á Emirates á sunnudag.

Enski landsliðsframherjinn þurfti að fara af velli í 2-1 sigri á Crystal Palace um síðustu helgi, en hann á við meiðsli í leggnum. Luke Shaw verður heldur ekki með, en hann meiddist einnig í sama leik.

„Staðan er ekki góð fyrir okkur. Hvorugur þeirra getur spilað,” sagði Van Gaal við MUTV, sjónvarpsstöð United.

„Það er lítið eftir af tímabilinu og við eigum einungis eftir að spila einn leik eftir Arsenal leikinn svo ég held að það verði erfitt fyrir þá að spila aftur á þessu tímabili.”

Angel di Maria og Robin van Persie hafa verið að berjast við meiðsli, en líkur eru þó á því að þeir ásamt Marcos Rojo verði klárir í stórleikinn á sunnudag.

„Di Maria og Robin van Persie eru klárir að spila. Rojo hefur æft þessa vikuna með okkur og hann gæti spilað,” sagði Hollendingurinn að lokum.

United er í fjórða sætinu með 68 stig eftir 36 leiki, en Arsenal er í því þriðja með 70 stig eftir 35 leiki.

Leikurinn hefst klukkan 15:00 á sunnudag og verður í þráðbeinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2/HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×