Í tilefni af því var Grímur leikstjóri í viðtali við vefritið Variety. „Báðir foreldrar mínir ólust upp í sveit og ég var sendur þangað til að vinna á sumrin þar til að ég varð sautján ára,“ segir Grímur. „Bændur eru flestir afar tengdir dýrunum sínum. Íslenska kindin er rótgróin í menningu okkar og hefur í gegnum tíðina átt stóran þátt í að Íslendingar komust af.“
Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson leika bræðurna Kidda og Gumma sem hafa ekki talast við í áratugi þrátt fyrir að búa hlið við hlið. Þeir deila ást á sauðkindinni og taka höndum saman þegar riða kemur upp í dalnum þar sem þeir búa.
„Theodór var alltaf valkostur númer eitt til að leika Kidda en í upphafi hafði ég hugsað mér annan sem Gumma. En þegar ég sá Sigga á Edduverðlaunahátíðinni skeggjaðan og með sítt hár sá ég hann fyrir mér sem bónda. Þeir eru ólíkir en með skeggin er auðvelt að halda að þeir séu bræður.“
Stikla úr Hrútum fylgir hér fyrir neðan.