Fótbolti

Slegist um 4.000 miða á leikinn gegn Tékklandi í hádeginu í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hverjir verða þeir heppnu sem sitja í stúkunni 12. maí?
Hverjir verða þeir heppnu sem sitja í stúkunni 12. maí? vísir/andri marinó
Almenn miðasala á leik Íslands og Tékklands í undankeppni EM 2016 sem fram fer á laugardalsvelli föstudaginn 12. júní hefst klukkan 12.00 í dag.

Aðeins eru 4.000 miðar til sölu þó völlurinn taki 10.000, en stór hluti var seldur fyrir undankeppnina þegar fólki bauðst að kaupa svokallaða mótsmiða sem giltu á alla heimaleiki strákanna okkar auk miða sem seldir voru samstarfs- og kostunaraðila.

Leikurinn gegn Tékklandi er gríðarlega mikilvægur. Ekki bara upp á vonir Íslands um að komast á EM heldur hefur hann einnig mikið gildi hvað varðar stöðu Íslands á FIFA-listanum.

Með sigri á Tékkum þyrfti Ísland bara að vinna Kasakstan og Lettland heima til að tryggja sér sæti á EM í Frakklandi og komast á stórmót í fyrsta sinn.

Sigur myndi væntanlega líka gulltryggja sæti Íslands í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður til undankeppni HM 2018.

Fastlega má búast við að miðarnir seljist upp á nokkrum mínútum, en nánari upplýsingar um miðasölu má finna á vef KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×