Handbolti

Var ekki fædd þegar Íslandsmótið vannst síðast á sigurmarki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lovísa Thompson.
Lovísa Thompson. Vísir/Stefán
Lovísa Thompson var hetja Gróttu í gær þegar hún tryggði liðinu Íslandsmeistaratitilinn með því að skora sigurmarkið nokkrum sekúndum fyrir leikslok í fjórða leiknum við Stjörnuna.

Þetta er aðeins í annað skiptið í 23 ára sögu úrslitakeppni kvenna þar sem eitt mark í blálok leiksins tryggir liði Íslandsmeistaratitilinn.  

Gæsahúðin er enn til staðar og augun votna af tárum þegar þetta myndband er skoðað! Hversu frábærar eru þessar stelpur og hversu stórkostlega stuðningsmenn á Grótta? Langflottasta félagið á ÍSLANDI!

Posted by Grótta Handbolti on Wednesday, May 13, 2015
Ragnheiður skoraði sigurmark fyrir sautján árum

Það voru líka liðin sautján ár síðan að Íslandsmeistaratitill kvenna vannst á sigurmarki en Ragnheiður Stephensen tryggði Stjörnunni Íslandsmeistaratitilinn árið 1998 með því að skora úrslitamarkið í lokaleiknum á móti Haukum. 

Bikarinn er kominn á Seltjarnarnesið!! ÁFRAM GRÓTTA :)

Posted by Grótta Handbolti on Tuesday, May 12, 2015
Umfjöllun DV um Íslandsmeistaratitil Stjörnunnar 27. apríl 1998.
Hrund Grétarsdóttir fiskaði þá vítakast 11 sekúndum fyrir leikslok sem Ragnheiður Stephensen skoraði úr af öryggi. Sá tími sem eftir var var of naumur fyrir Hauka að knýja fram framlengingu.

„Þegar ég tók vítið hugsaði ég aðeins að maður gæti ekki sleppt þessu tækifæri. Hún var búin að verja tvö frá mér í fyrri leikjum og það þýddi bara að ég var búin að klikka," sagði Ragnheiður Stephensen í viðtali við DV eftir leikinn.

Lovísa, sem er fimmtán ára Valhýsingur, verður ekki sextán ára fyrr en í október, fékk risastórt hlutverk í besta liði landsins og stóð sig vel á stóra sviðinu þrátt fyrir ungan aldur og reynsluleysið. Lovísa var ekki fædd þegar Ragnheiður skoraði sigurmarkið sitt 25. apríl 1998.

Sjá einnig: Fyrsta félagið sem vinnur þrjá stærstu titlana í fyrsta sinn á sama árinu 

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, setti lokaleikkerfið upp fyrir grunnskólastelpuna og hún svaraði með því að skora með frábæru skoti framhjá markverðinum frábæra Florentinu Stanciu. Stjörnukonur höfðu ekki tíma til að fara í sókn því leiktíminn rann út stuttu eftir að boltinn lá í markinu. 

„Ég veit ekki hvað ég fór að hugsa þá. Annað en að ég ætlaði bara að skora. Það var það eina sem ég hugsaði um,“ sagði Lovísa í viðtali við Vísi eftir leikinn. 

Það hafa verið jafnir úrslitaleikir í úrslitakeppni kvenna sem hafa unnist bæði í framlengingu og vítakeppni en þetta var í fyrsta sinn frá 1998 þar sem eitt einstakt mark færir liði Íslandsmeistaratitilinn.

Lovísa Thompson er hér nýbúin að skora sigurmarkið og aðeins þrjár sekúndur standa eftir á klukkunni.Vísir/Valli

Tengdar fréttir

Lovísa: Hugsaði bara um að skora

Lovísa Thompson fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í kvöld með páskaeggi sem hún hafði geymt frá því um páskana. Hin fimmtán ára Lovísa var hetja Gróttu en hún skoraði sigurmarkið gegn Stjörnunni í kvöld og tryggði Gróttu þar með Íslandsmeistaratitilinn.

Ísköld Lovísa tryggði sigurinn

Grótta varð Íslandsmeistari í hópíþrótt í fyrsta sinn í sögu félagsins er liðið vann sigur á Stjörnunni í Mýrinni í gær. Hin fimmtán ára gamla Lovísa Thompson skoraði dramatískt sigurmark Gróttu.

Kári: Ólýsanleg tilfinning

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, var vitanlega himinlifandi með sigur síns liðs á Stjörnunni og Íslandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×