Innlent

Hrútar frumsýnd á Íslandi í kvöld

Linda Blöndal skrifar
Verðlaunamyndin Hrútar verður frumsýnd hér á landi norður í Reykjadal í kvöld.  Stöð tvö hitti sigurreifa menn á Reykjavíkurflugvelli í dag. 



Íslandsfrumsýningin í kvöld

Aðstandendur myndarinnar eru nýlentir á Íslandi eftir mikla sigurför á kvikmyndahátíðinni í Cannes og leiðin leið beint norður með flugi á staðinn þar sem myndin er tekin upp og þar verður Íslandsfrumsýningin.

Myndin fékk eins og kunnugt er um helgina Un Certain Regard verðlaunin fyrir unga og upprennandi leikstjóra, sem eru með Gullpálmanum önnur aðalverðlaun hátíðarinnar. Þetta er í fyrsta sinn í 68 ára sögu keppninnar sem íslensk kvikmynd í fullri lengd vinnur til verðlauna í Cannes en vonir standa þó helst til að Íslendingum falli hún ekki síður vel.



Við hæfi að sýna sveitinum fyrst

Sigurður Sigurjónsson leikari sagði þegar hann beið eftir flugi á Reykjavíkurflugvelli í dag það það væri við hæfi að frumsýna fyrir norðan. „Já, það er algjörlega við hæfi að frumsýna þetta fyrir sveitunga okkar og þá sem að störfuðu með okkur við myndina og hrútana og kindurnar í sveitinni. Þar eigum við að byrja", sagði hann við stöð tvö sem hitti kvikmyndagerðarmennina á vellinum.

En hvar verður hvíta tjaldið í sveitinni? Grímur Hákonarsson, leikstjóri sagði ágætan sal til reiðu. „Þetta verður sýnt í kvikmyndahúsi á Laugum. Ég hef að vísu aldrei komið þangað en þetta er víst hundrað manna salur og það mæta allir sveitungar þarna sem voru að vinna í myndinni.  



„Leik núna á mínum heimavelli"

Aðspurðir hvernig væri að koma úr stjörnurykinu í Cannes og beint norður sögðu Grímur og Sigurjón það takast ágætlega að koma sér aftur niður á jörðina. „Með fullri virðingu fyrir Cannes þá kann ég afskaplega vel við það. Nú er ég að leika á mínum heimavelli fyrir mitt fólk. Þannig að ég kann því vel", sagði Sigurjón og benti á látlausan klæðnað sinn. 



Gott að hvíla sig á stjörnulífinu

„Það verður gott að hvíla sig aðeins á hvítvíninu en þetta er búið að vera algjört ævintýri þarna úti en við erum aðeins búnir að klæða okkur niður á við, erum við hæfi hér og nú. En þetta er búið að vera frábært og frábærar viðtökur. En myndin er fyrst og fremst fyrir Íslendinga og það sem við viljum helst af öllu er að fólk fari á hana", sagði Grímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×