Bíó og sjónvarp

Hrútar vinna til Un Certain Regard verðlaunanna á Cannes

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sigurður Sigurjónsson, Grímur Hákonarson og Theódór Júlíusson að stilla sér upp fyrir ljósmyndara áður en þeir héldu á rauða dregilinn.
Sigurður Sigurjónsson, Grímur Hákonarson og Theódór Júlíusson að stilla sér upp fyrir ljósmyndara áður en þeir héldu á rauða dregilinn. vísir/brynjar snær
Kvikmyndin Hrútar, í leikstjórn Gríms Hákonarsonar, vann rétt í þessu til Un Certain Regard verðlaunana í samnefndum flokki á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Þetta er í fyrsta sinn í 68 ára sögu keppninnar sem íslensk kvikmynd í fullri lengd vinnur til verðlauna á hátíðinni.

Í Un Certain Regard flokknum eru veitt verðlaun í nokkrum flokkum og fékk Hrútar sjálf Un Certain Regard-verðlaunin (Prize of Un Certain Regard). Forseti dómnefndar var leik- og kvikmyndagerðarkonan Isabella Rossellini.

„Þetta er gríðarlegur heiður fyrir Grím, allt okkar góða fólk sem vann að myndinni með okkur, íslenska kvikmyndagerð og ekki síst íslensku sauðkindina,“ segir Grímur Jónsson, framleiðandi Hrúta, sem staddur er í Cannes, ásamt Grími leikstjóra og handritshöfundi.

Hrútar er önnur íslenska kvikmyndin sem kemst í Un Certain Regard keppnina. Árið 1993 komst hin goðsagnakennda mynd Sódóma Reykjavík eftir Óskar Jónasson þangað.

Kvikmyndin Stormviðri eftir Sólveigu Anspach var valin í Un Certain Regard árið 2003 en hún var frönsk framleiðsla og Dagur Kári Pétursson var valinn með dönsku myndina Voksne Mennsker árið 2005.

Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum. Aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson fyrir Netop Films og meðframleiðendur eru hin dönsku Ditte Milsted og Jacob Jarek fyrir Profile Pictures. Þá er Þórir Snær Sigurjónsson einn af framleiðendum myndarinnar. Framleiðslustjórn er í höndum Evu Sigurðardóttur. Með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Norðmannsins Sturla Brandth Grøvlen og Kristján Loðmfjörð sér um klippingu myndarinnar. Tónlist myndarinnar er samin af Atla Örvarssyni og hljóðhönnun er í höndum Huldars Freys Arnarssonar og Björns Viktorssonar.


Tengdar fréttir

Sögulegir Hrútar í Cannes

Kvikmyndahatíðin í Cannes er haldin 13 – 24 maí þetta árið og er þetta 68 skiptið sem þessi virta hátíð er haldin. Íslendingar settu mark sitt á hátíðina í ár en í fyrsta sinn í 22 ár var íslensk mynd í aðalprógrammi hátíðarinnar, myndin Hrútar eftir Grím Hákonarson.

Kindurnar með hreinum ólíkindum

Hrútar, kvikmynd Gríms Hákonarsonar, umturnaði Bárðardal á meðan á tökum stóð en bændur og kvikmyndagerðarmenn lögðust á eitt til að gera myndina að veruleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.