Enski boltinn

Giroud hjólar í Henry: Hann er leiðinlegur álitsgjafi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giroud er að klára sitt þriðja tímabil hjá Arsenal.
Giroud er að klára sitt þriðja tímabil hjá Arsenal. vísir/getty
Oliver Giroud, framherji Arsenal, er ekki sáttur með gagnrýni landa síns, Frakkans Thierry Henry, sem starfar sem álitsgjafi á Sky Sports.

„Giroud er að standa sig virkilega vel en geturðu unnið deildina með hann sem aðalframherja? Ég held ekki,“ sagði Henry eftir markalaust jafntefli Arsenal og Chelsea í apríl.

Giroud er ekki sáttur með þessa gagnrýni Henrys og segir að framherjinn fyrrverandi látið þessi ummæli falla til að styrkja eigin stöðu.

„Hann hefur verið leiðinlegur álitsgjafi. En þetta var sprengja og hafði tilætluð áhrif,“ sagði Giroud og tók þar með undir orð Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal.

„Þetta er það sem hann fær borgað fyrir,“ sagði Wenger um fyrrverandi lærisvein sinn.

„Við vitum hvernig þetta gengur fyrir sig í nútímafjölmiðlum, sérstaklega í sjónvarpinu. Álitsgjafarnir eru hvattir til að vera umdeildir til að vinna fyrir kaupinu sínu.“

Giroud hefur skorað 14 mörk í 26 deildarleikjum í vetur. Honum hefur hins vegar ekki tekist að koma boltanum yfir línuna síðan í 4-1 sigrinum á Liverpool 4. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×