Innlent

Skothvellur í Kópavogi: „Hver veit hefði hann verið í aðeins verra skapi“

Birgir Olgeirsson skrifar
Aron Daníel Hjartarson.
Aron Daníel Hjartarson.
„Hver veit hefði hann verið í aðeins verra skapi,“ sagði Aron Daníel Hjartarson í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 frá vettvangi við Hlíðarhjalla þar sem sérsveit Ríkislögreglustjóra hefur umkringt fjölbýlishús eftir að maður vopnaður haglabyssu skaut þar úr vopni sínu fyrr í dag.

Lögreglan lokaði svæðinu í kjölfarið og var íbúum og vegfarendum bannað að fara þar um. Aron Daníel hafði þó verið að mála grindverk fyrir utan stigaganginn sem maður býr í þegar hann heyrði mikinn hvell. Það reyndist vera skothvellur úr byssu mannsins en Aron sagðist ekki hafa veitt því mikla athygli og hélt að einhver hefði sprengt flugeld.

„Svo eftir 20 mínútur kemur lögreglan og rekur mig í burtu og segir að það hafi verið skotið úr byssu beint fyrir framan mig. Eftir það kemur sérsveitin vopnuð og mér bregður alveg rosalega mikið. Þessi maður hafði verið að skjóta úr haglara, beint fyrir framan mig þar sem ég var að mála,“ sagði Aron Daníel.

Hann sagðist vera hugsi yfir því að hafa ekki brugðist betur við þegar hann heyrði hvellinn. „Ég stóð þarna í 20 mínútur og hver veit hefði hann verið í aðeins verra skapi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×