Viðskipti innlent

Játar að hafa dregið að sér rúmar fimmtíu milljónir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Daníel
Fjármálastjóri byggingafyrirtækisins Hyrnu ehf. á Akureyri hefur játað að hafa dregið að sér yfir fimmtíu milljónir króna á rúmlega fimmtán ára tímabili.

Honum var sagt upp störfum í síðustu viku þegar upp komst um málið við endurskoðun reikninga fyrirtækisins að sögn Örn Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Hyrnu.

Hann segir að málið sé nú til rannsóknar hjá endurskoðendum og lögfræðingum og að engar ákvarðanir hafi verið teknar í málinu að svo komnu máli.

Enginn vafi léki þá að sekt fjármálastjórans fyrrverandi sem hafi viðurkennt brot sín og skrifað undir yfirlýsingu þess efnis.

Örn vildi ekki gefa upp hvernig starfsmaðurinn hafi staðið að brotunum en sagði þó að hinar rúmur 50 milljónir sem um ræðir hafi allar ratað á bankareikninga fjármálastjórans og að fjárdrátturinn hafi ágerst á síðastliðnum þremur árum.

Fréttastofa RÚV greindi fyrst frá fjárdrættinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×