Bíó og sjónvarp

Jurassic World á góðri leið með að verða vinsælasta mynd ársins

Birgir Olgeirsson skrifar
Chris Pratt sem Owen Grady í Jurassic World.
Chris Pratt sem Owen Grady í Jurassic World. Vísir/Imdb
Kvikmyndin Jurassic World átti afar góða frumsýningarhelgi og er á góðri leið með að verða vinsælasta mynd ársins.

Kvikmyndaverið Universal Pictures tilkynnti í gær að fyrirtækið áætlaði að kvikmyndin myndi hala inn 204 milljónum dala í 4.274 kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum á frumsýningarhelginni. Myndin fer til að mynda vel yfir Avengers: Age of Ultron sem halaði inn 191 milljón dala á frumsýningarhelginni og er nú talað um að myndin verði sú vinsælasta þó enn eigi eftir að frumsýna nýjustu stjörnustríðsmyndina, Star Wars: The Force Awakens.

Til viðbótar við þær 204 milljónir sem Jurassic World þénaði á frumsýningarhelginni í Bandaríkjunum þá vakti hún stormandi lukku á heimsvísu þar sem hún rakaði inn 307 milljónum og eru því heildartekjur hennar nú þegar 511 milljónir Bandaríkjadala, sem nemur um 67 milljörðum íslenskra króna.

Og nú þegar hafa nokkrar kenningar komið fram þegar myndin hefur verið frumsýnd. Til að mynda ein stórskemmtileg. Leikarinn Chris Pratt leikur aðalsöguhetju Jurassic World, Owen Grady, en sá á í afar nánu sambandi við snareðlur.

Einn af notendum vefsins Reddit fleygði þeirri kenningu fram Owen Grady gæti hafa birst áhorfendum áður og það í fyrstu myndinni, Jurassic Park, sem kom út árið 1993. Um er að ræða atriðið þar sem Dr. Alan Grant, sem Sam Neill lék, er kynntur til leiks en þar fræðir hann hrokafullan dreng um hætturnar sem stafa af snareðlum á eftirminnilegan hátt. Grant lauk ræðu sinni með því að biðja drenginn um að sýna skepnunum meiri virðingu.

Í Jurassic World segist Grady ekki stjórna snareðlunum heldur eigi hann í sambandi við þær sem byggt er á gagnkvæmri virðingu. Þetta er þó einungis skemmtileg kenning sem ekki hefur fengist staðfest.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×