Fótbolti

Vrba: Enginn vill spila á móti Íslandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pavel Vrba, landsliðsþjálfari Tékka, á blaðamannafundinum eftir leik í kvöld.
Pavel Vrba, landsliðsþjálfari Tékka, á blaðamannafundinum eftir leik í kvöld. Vísir/Getty
„Það var erfitt að halda í við íslenka liðið. Ísland var betra liðið og það var erfitt að ráða við þá og fylgja eftir góðri byrjun okkar," sagði Pavel Vrba, þjálfari Tékklands, nokkuð svekktur á blaðamannafundi eftir leikinn í kvöld.

„Það var gott að skora og komat yfir, en okkur leið ekki vel með að fá á okkur mark í bakið."

„Við vitum að Tyrkland og Holland unnu sem er ekki gott fyrir okkur í riðlinum. Við verðum að einbeita okkur að leikjunum í september. Það verður mikilvægt að spila vel þar," sagði Vrba.

Landsliðsþjálfarar Íslands komu nokkuð á óvart með uppstillingunni í kvöld og byrjuðu með Jóhann Berg Guðmundsson frammi ásamt Kolbeinni.

„Það kom aðeins á óvart en við vorum tilbúnir fyrir þennan möguleika. Ég var líka búinn að reikna með þessu," sagði Vrba sem hrósaði íslenska liðinu og íslenskum fótbolta.

„Ég sagði það líka á fundinum í gær að Ísland hefur tekið framförum undanfarin ár og unnið vel í fótboltanum. Sérstaklega með unga fólkið."

„Ég sá Ísland spila í Austurríki og veit að Ísland er lið sem enginn vill spila á móti."

Vrba segir íslenska liðið ekki komið á EM með þessum sigri þar sem enn eru mikilvægir leikir eftir í riðlinum.

„Sá sem myndi vinna leikinn í dag yrði nær EM eins og ég sagði í gær en Ísland á líka eftir erfiða leiki líka."

„Við verðum bara að skoða hvað gerðist. Þetta var slæmt tap en við verðum bara að sætta okkur við að íslenska liðið var betra í dag," sagði Pavel Vrba.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×