Skoðun

Launaseðill hjúkrunarfræðings

Ingibjörg Guðmundsdóttir skrifar
Í tilefni af umræðu um meðallaun íslenskra hjúkrunarfræðinga þá er hér meðfylgjandi síðasti launaseðill minn áður en verkfall skall á. Ég útskrifaðist fyrir 7 árum síðan og hækkaði upp í þessi laun núna síðastliðin áramót og á því ekki von á því að hækka neitt í launum næstu 2 árin. Ég er í 90% vinnu á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga í mjög krefjandi starfi sem krefst viðamikillar þekkingar og fagmennsku.

Að sinna mörgum sjúklingum í einu sem þurfa á flókinni krabbameinslyfjagjöf að halda þarfnast mikillar nákvæmni, kunnáttu og hæfni til þess að bregðast við öllum mögulegum fylgikvillum sem upp geta komið. Það má ekkert bregða út af og mistök geta orðið ansi dýrkeypt. Ég get ekki með nokkru móti skilið af hverju minn launaseðill endurspeglar á engan hátt þá miklu ábyrgð sem ég axla og þá 4 ára háskólamenntun sem ég hef lokið til þess að sinna minni vinnu.

Við hjúkrunarfræðingar erum ekki með óraunhæfar kröfur. Við erum einfaldlega að biðja um að menntun okkar sé metin til launa líkt og aðrir háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn með sambærilega menntun. Einnig erum við með þá sjálfsögðu kröfu að árið 2015 sé kynbundnum launamun útrýmt. Árið 2015 verður það að vera raunhæfur möguleiki að „hin hefðbundnu kvennastörf“ geti eftir 4 ára krefjandi háskólagöngu verið fyrirvinnur á sínu heimili.

Ef við viljum tryggja heilbrigðiskerfi til framtíðar er algjört grundvallaratriði að halda í mannauðinn. Án hans er spítali ekkert nema auð bygging. Íslendingar eiga vel menntaða hjúkrunarfræðinga sem eru eftirsóknarverðir í öllum heiminum.

Veljum hágæða heilbrigðiskerfi á Íslandi og semjum um réttlát laun í takt við menntun og ábyrgð og metum mannauðinn okkar að verðleikum áður en að það verður um seinan.

Launaseðill Ingibjargar.



Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×