Lífið

Sænskar konur fá nýtt orð fyrir sjálfsfróun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Sænskar konur munu „klittra sér” í auknum mæli á komandi misserum gangi hugmyndir sænska kynfræðsluráðsins eftir sem í nóvember síðastliðnum hóf leitina að nýju orði fyrir sjálfsfróun kvenna.

Hugmyndin að baki leitinni var að reyna að greiða leið sjálfsfróunar kvenna inn í opinbera umræðu, eyða skammarblöndnu feimninni sem enn þjakar margar konur þegar sjálfsfróun ber á góma en um leið undirstrika að konur og karlar fróa sér á mismunandi vegu. Var því ákveðið að ráðast í nýyrðasmíð með aðstoð sænsks almennings og eftir að kynfræðsluráðið hafði unnið sig í gegnum þær rúmlega 1200 tillögur sem bárust lá niðurstaðan loksins fyrir í liðinni viku – sagnorðið „klittra“ en næst á eftir komu „runka“ og „pulla“

Í tilkynningu frá sænska kynfræðsluráðinu segir að orðið hafi borið sigur úr býtum ekki síst vegna þess að það undirstrikar mikilvægi snípsins fyrir fullnæginu kvenna – en snípur er klitoris á sænsku. Áætlað er að þrír fjórðu hlutar kvenna fá ekki fullnægingu án örvunar snípsins.

Áströlsk rannsókn frá árinu 2014 leiddi í ljós að konur fróuðu sér í mun minna mæli en karlmenn á liðnu ári – 72 prósent karla á móti 42 prósent kvenna – og karlar voru mun líklegri til að hafa fróað sér á síðastliðnum fjórum vikum.

Þrátt fyrir að æ fleiri konur eigi auðveldara með að ræða um sjálfsfróun sína á hún þó ekki nándar nærri jafn mikið upp á pallborðið og fróun karla – bæði í einkasamtölum sem og í dægurmenningu. „Við tölum um sjálfsfróun karla í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, bröndurum og öðrum poppkúltúr. Það eru til óendanlega mörg hugtök fyrir það þegar karlmenn vilja létta af sér,” skrifaði Jenny Block á sínum tíma og bætti við: „En þegar sjálfsfróun kvenna er annars vegar þá heyrist ekki múkk.”

Sænsku orðasamkeppninni var ætlað að vinna bug á þessu ójafnvægi og vinnur sænska kynfræðsluráðið nú í því að koma klittra í næstu útgáfu hinnar opinberu sænsku orðabókarinnar - Svenska Akademiens ordlista






Fleiri fréttir

Sjá meira


×