Innlent

Salmann mokar þorsknum upp

Jakob Bjarnar skrifar
Þorskar Salmanns. Aldrei fengið eins mikinn afla. Hinn fengsæli sjóstangarveiðimaður rekur það til þess að nú er Ramadan.
Þorskar Salmanns. Aldrei fengið eins mikinn afla. Hinn fengsæli sjóstangarveiðimaður rekur það til þess að nú er Ramadan.
Salmann Tamimi, sem meðal annars er þekktur sem einn helsti talsmaður múslíma á Íslandi, hefur verið að gera góða veiði, hann fór út á bát sínum í góða veðrinu og veiddi 37 þorska á þremur tímum.

„Já, nú fer ég að sækja um kvóta. Makrílkvóta,“ segir Salmann í samtali við Vísi. Hann hefur átt bát sinn nú í tvö ár, sex metra yfirbyggður bátur með utanborðsmótor, og hefur aldrei gert eins góða veiði og nú. „Nú er Ramadan og guð blessar þetta og færir mér lukku,“ segir Salmann. Fenginn tók hann á sjóstöng og rétt utan við Reykjavík, við Viðey.

„Ég gef vinum mínum þetta. Fjórum fjölskyldum. Ég fékk ekkert sjálfur, ég á í frysti,“ segir Salmann en þetta er góð búbót. Salmann segist hafa mikla ánægju af veiðunum. „Ég ætla að nota sumarið vel. Jájá, ég er bara einn. Mér finnst þetta voðalega gaman. Gaman að tala við fuglana í staðinn fyrir að fara niður í bæ og tala við einhverja furðufugla,“ segir Salmann, hlær og leikur við hvurn sinn fingur. Vísir missti hann á fund áður en tókst að spyrja hann nánar út í aflabrögðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×