Innlent

Fangi fluttur slasaður á sjúkrahús

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fanginn afplánar á Litla-Hrauni.
Fanginn afplánar á Litla-Hrauni. vísir/heiða
Fangi slasaðist alvarlega á hendi á Litla-Hrauni í dag en ekki var hægt að fara með hann á slysadeild fyrr en rúmum klukkutíma síðar.

Annar fangi sem hafði samband við fréttastofu taldi óeðlilegt að samfangi hans kæmist ekki undir læknishendur strax og fullyrti að fangaverðir neituðu að fara með manninn á sjúkrahús. Taldi hann þar spila inn í að fanginn ætti sér sögu um agabrot inni á Litla-Hrauni.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að þetta eigi sér eðlilegar skýringar.

„Stundum því miður sýna fangar af sér sjálfskaðandi hegðun og það getur gerst á öllum tímum sólarhrings. Við erum ekki með þannig mönnun hjá okkur að mögulegt sé að fara með alla á sjúkrahús strax. Við getum ekki skilið fangelsin eftir tóm eða lítt mönnuð til að sinna svona málum,“ segir Páll.

Hann segir hvert tilfelli fyrir sig metið strax í samráði við heilbrigðisstarfsfólk og aðgerðir séu svo metnar út frá því. Ef um alvarlegri tilvik sé að ræða sé kallað til sjúkrabíls um leið. Áverkar fangans í dag hafi hins vegar ekki verið metnir þannig að þess væri þörf. Kalla hafi þurft út fangaverði svo hægt væri að fylgja fanganum á sjúkrahús. Allir fangar sitji við sama borð hvað þetta varði á Litla-Hrauni.

„Ég get fullyrt það að út frá heilbrigðisþjónustu eru allir fangar jafnir af okkar hálfu. Ef fangi veikist eða slasast þá skiptir nákvæmlega engu máli hvað hann hefur gert í fortíðinni, fyrir hvað hann er dæmdur eða hver staða hans er í afplánuninni. Við leggjum að sjálfsögðu jafnmikla áherslu á heilsu allra fanga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×