Íslenskur eðlisfræðingur hefur í samstarfi við sænskan prófessor birt vísindagrein þar sem skýrt er frá þeim byltingakennda möguleika, að raunhæft sé að framleiða ódýra orku í ómældu magni með því að umbreyta vatni í orku með samruna vetnis. Sífellt fleiri vísindamenn heimsins taka þátt í að þróa slíkar rannsóknir
Sveinn Ólafsson, eðlisfræðingur sem starfar við Háskóla Íslands hefur í samstarfi við Leif Holmild, prófessor í eðlisfræði við Gautaborgarháskóla birt nýja ritrýnda grein með þeim niðurstöðum að hægt sé að þróa aðferð til að framleiða orku með svokölluðum köldum samruna vetnis.
Greinin birtist í ritinu International Journal of Hydrogen Energy. Morgunblaðið fjallar um þetta í dag.
En með frekari rannsóknum og vilja vísindasamfélagsins mætti framleiða endalaust af ódýrri orku með tilheyrandi byltingu fyrir samfélög heims.
Vetni er frumefni og finnst í vatni. Á einfaldan hátt má segja að með samruna vetnis, verði í ákveðnu ferli, til þéttur vetnisfasi sem sendir frá sér orku.
„Þá væri þetta í rauninni voðalega mikil orka sem hægt væri að umbreyta vegna þess að eitt glas af vatni er eins og milljón lítrar af bensíni í orkuinnihaldi, það er að segja kjarnorkuinnihaldi,” segir Sveinn.
Þannig sé hægt að nota vetni úr vatni til að framleiða hreina orku. Yrði það annað hvort gert með því að taka fjögur vetnisatóm og hverfa þau í helín eins og gerist í kjarna sólarinnar eða þá að nýta tvívetni. Sveinn vonast til að grein hans verði til þess að fjármagnafrekari rannsóknir á köldum samruna.
Orkuframleiðslan er líkt og jarðvarmavirkjun að borholunum slepptum, segir Sveinn en nú sé verið að taka fyrstu sporin í átt að skýrari niðurstöðum.
Sveinn segir að stigandi hafi verið á hverju ári í rannsóknunum á köldum samruna og að vísindasamfélagið sé að vakna til meðvitundar um að þetta sé raunhæft möguleiki. Þó er margt enn óútskýrt í rannsóknunum.
Viðtal við Svein Ólafsson má hlusta í heild sinni hér að ofan.
Viðskipti innlent