Innlent

Snarpi kuldapollurinn stefnir því miður í átt til landsins

Birgir Olgeirsson skrifar
Svona lítur spákort mánudagsins út á vedur.is.
Svona lítur spákort mánudagsins út á vedur.is.
Ekkert lát er á kuldanum sem streymir til landsins með norðanáttinni úr Norðuríshafinu. Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á bloggi sínu snarpa kuldapoll austur af Jan Mayen stefna því miður í átt til landsins.

„Gæti þó geigað lítillega (vonandi). Í miðju pollsins – fari hann um Ísland er hiti um það bil 7 stigum undir meðallagi árstímans. En það afbrigðilega ástand stæði ekki lengi – því pollurinn fer hratt hjá,“ skrifar Trausti og býst við að það muni gerast líklega á sunnudag og mánudag.

Næstu daga verður því norðlæg átt yfir landinu og þeir landshlutar sem njóta vinds af landi munu njóta einhverskonar sumablíðu. Á það aðallega við sunnanvert landið í þessari átt.

Veðurhorfur næstur daga:

Á morgun:Verður dálítil rigning eða súld norðan- og austantil á morgun og líkur á skúrum Suðaustanlands, en áfram bjartviðri á Suður- og Vesturlandi. Hiti 4 – 16 stig, hlýjast Suðvestanlands en kaldast á annesjum fyrir norðan.

Á sunnudag og mánudag:

Norðlæg átt, 5-13 m/s og rigning á norðan- og austanverðu landinu, annars skýjað með köflum. Hiti 3 til 14 stig, hlýjast syðst.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Áframhaldandi norðlæg átt, 5-13 m/s með rigningu öðru hverju fyrir norðan og austan en bjart með köflum S- og SV-lands. Hiti 4 til 14 stig, hlýjast SV-lands.

Á föstudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt, skýjað en úrkomulítið fyrir norðan en skúraleiðingar sunnanlands. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast SV-lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×