Innlent

Varar við fæðubótarefni Arnolds Schwarzenegger

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Matvælastofnun er ekki kunnugt um að efnið hafi verið flutt hingað til lands en varar engu að síður við Arnold Iron Dream.
Matvælastofnun er ekki kunnugt um að efnið hafi verið flutt hingað til lands en varar engu að síður við Arnold Iron Dream. mynd/matvælastofnun
Matvælastofnun varar við fæðubótarefninu Arnold Iron Dream en varan er ólögleg hér á landi. Fæðubótarefnið hefur verið innkallað í 28 löndum í Evrópu þar sem efnið dínítrófenól fannst í vörunni við reglubundið eftirlit í Bretlandi. Notkun þess efnis í fæðubótarefni er óheimil.

„Dínítrófenól er hættulegt neytendum og þarf ekki nema lítið magn af efninu til að eituráhrif komi fram. Það hefur valdið alvarlegum aukaverkunum og dauðsföll hafa verið rakin til neyslu efnisins,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Þar kemur jafnframt fram að stofnunin hafi ekki upplýsingar um að Arnold Iron Dream hafi verið flutt til landsins en engu að síður sé ekki hægt að útiloka að einhverjir hafi keypt fæðubótarefnið í gegnum erlendar vefsíður eða eitthvað slíkt.

„Fæðubótarefnið Arnold Iron Dream hefur áður komið til kasta Matvælastofnunar. Stofnuninni barst tilkynning um vöruna í tengslum við fyrirhugaðan innflutning árið 2013 í samræmi við ákvæði um tilkynningarskyldu í reglugerð um fæðubótarefni.

Í tilkynningarferlinu var innflytjanda bent á að óheimilt væri að flytja vöruna inn til landsins og/eða dreifa henni þar sem hún innihélt efni sem skilgreint er sem lyf hérlendis. Hér var um annað innihaldsefni en DNP að ræða.

Efnið dínítrófenól er ekki tilgreint í innihaldslýsingu Arnold Iron Dream en í ljósi þess að efnið hefur greinst í vörunni varar Matvælastofnun við neyslu á öllum vörum undir þessu vöruheiti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×