Erlent

Bjóða sextíu milljónir pesóa fyrir upplýsingar um eiturlyfjamógúl

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Göngin þykja mjög fullkomin og líklegt að aðrir fangar, og jafnvel fangaverðir, hafi komið að gerð þeirra.
Göngin þykja mjög fullkomin og líklegt að aðrir fangar, og jafnvel fangaverðir, hafi komið að gerð þeirra. vísir/ap
Mexíkósk yfirvöld hafa enn ekki hugmynd um hvar eiturlyfjabaróninn Joaquin Guzman er niðurkominn. Þau bjóða hverjum þeim sem getur vísað á hann 3,8 milljónir dollara í fundarlaun. CNN greinir frá.

Síðastliðinn laugardag fór Guzman inn í sturtuklefa í Almoloya de Juarez öryggisfangelsinu og gekk út í frelsið eftir mílu löngum göngum sem virðast hafa verið byggð sérstaklega fyrir hann. Guzman, oft kallaður „hinn smávaxni“, er mikill sérfræðingur í að grafa göng enda þurft að smíða þau nokkur til að koma eiturlyfjum yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Joaquin Guzmanmynd/embætti saksóknara í mexikó
„Fyrstu 72 klukkustundirnar eftir flóttann eru þær mikilvægustu,“ segir Mike Braun fyrrum yfirmaður í fíkniefnalögreglu Bandaríkjanna en hann hefur varið fjölda ára í að rannsaka Guzman. „Ef hann næst ekki á fyrstu þremur dögunum eru yfirgnæfandi líkur á að við munum aldrei sjá hann aftur.“

Sextíu milljónum pesóa hefur verið heitið til höfuðs Guzman. Yfirvöld birtu einnig nýja mynd af honum þar sem hann sést rakaður og án yfirvaraskeggs síns sem hefur, auk smæðarinnar, löngum verið hans aðalsmerki. 

Fjöldi fanga í fangelsinu hefur verið yfirheyrður vegna málsins og allir yfirmenn þess hafa verið látnir taka poka sinn. Talið er nær öruggt að þeir hafi aðstoðað við flóttann. Göngin sem hann slapp út um voru engin hrákasmíð en þau voru mílulöng, með loftræstikerfi og rúmlega 160 sentimetrar á hæð. Akkúrat passleg svo Guzman gæti gengið uppréttur út í frelsið. 

Þetta er í annað sinn á þessari öld sem hinn smávaxni sleppur úr fangelsi í landinu. Í fyrra skiptið tók það hann átta ár en það gerðist árið 2001. Núna var hann aðeins tæpt eitt og hálft ár að grafa sig út. 

Hinn smávaxni er tíundi ríkasti maður Mexíkó og eiturlyfjaveldi hans er það stærsta sem sögur fara af. Hann hefur iðulega ratað á lista Forbes yfir 100 áhrifamestu menn í heiminum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×