Innlent

Lögreglan kölluð til vegna undirskriftasöfnunar í Reykjanesbæ

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá undirskriftasöfnuninni í dag.
Frá undirskriftasöfnuninni í dag. mynd/kristlaug sigurðardóttir
Lögreglan var kölluð til um klukkan hálftvö í dag að Nettó í Reykjanesbæ þar sem sjö manns stóðu fyrir utan verslunina og söfnuðu undirskriftum vegna íbúakosningar um kísilverksmiðju í Helguvík.

„Við vorum búin að vera hérna í klukkutíma þegar verslunarstjóri Nettó kom út og sagði að við mættum alls ekki vera hérna, við yrðum að fara út að lóðamörkum. Við neituðum að fara og hvöttum hann til að hringja á lögregluna sem hann og gerði,“ segir Kristlaug Sigurðardóttir, ein af þeim sem eru að safna undirskriftum fyrir utan Nettó.

Kristlaug segir að lögreglan hafi beðið þau um að fara út að lóðamörkum en hópurinn hafi neitað því.

„Við sögðum að við ætluðum að vera með borgaralega óhlýðni því við ætlum ekki að fara. Lögreglan tók niður kennitölurnar okkar og fór svo. Við teljum okkur hafa fullan rétt til þess að vera hér. Við erum ekkert að ráðast á fólk eða að elta það inn í búðina til að skrifa undir heldur bara að spjalla við það og biðja það um að skrifa undir,“ segir Kristlaug.

Hún segir um 2000 manns hafa skrifað undir og að bæjarbúar taki almennt vel í undirskriftasöfnunina. Gengið hafi verið í hús í bænum og þá hafi þau líka safnað undirskriftum fyrir utan Nettó á föstudaginn í seinustu viku og í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum ætlar hún ekkert að aðhafast meir í málinu. Rætt hafi verið við fólkið sem hafi neitað að fara þó að það sé á lóðinni í óþökk að því er virðist lóðareiganda. Enginn verði handtekinn vegna undirskriftasöfnunarinnar.

Nettó er í verslunarkjarna við Krossmóa í Reykjanesbæ. Eftir því sem Vísir kemst næst er það markaðsráð húsfélags verslunarkjarnans sem er mótfallið því að undirskriftunum sé safnað fyrir utan Nettó.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×