Bílar

Nissan framúr Toyota í Evrópu

Finnur Thorlacius skrifar
Nissan Qashqai.
Nissan Qashqai.
Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefur Nissan selt fleiri bíla í Evrópu en Toyota og er með því stærsti japanski framleiðandinn sem selur bíla í álfunni. Toyota hefur verið söluhæsta japanska bílamerkið í Evrópu frá árinu 1998, en þá tók Toyota þann titil einmitt af Nissan.

Nissan hefur aukið sölu sína í Evrópu í ár um 21% og selt 303.507 bíla á þessum fyrstu 6 mánuðum. Er markaðshlutdeild Nissan nú komin í 4,1% í Evrópu, en var 3,7% á fyrstu 6 mánuðunum í fyrra. Sala Toyota bíla jókst á sama tíma um 4,2% og seldi Toyota 293.968 bíla, svo ekki munar miklu á merkjunum, eða rétt um 10.000 bílum.

Ein stærsta ástæðan fyrir minni vexti Toyota en Nissan er síminnkandi sala Toyota bíla á stærsta bílamarkaði Evrópu, í Þýskalandi, og of gamlar bílgerðir fyrirtækisins. Í Þýskalandi jókst sala Nissan bíla um 10% en minnkaði hjá Toyota um 7% og hefur Toyota lokað einum 100 söluumboðum í Þýskalandi vegna hinnar dvínandi sölu þar.

Góð sala Nissan í Evrópu er ekki síst að þakka gríðarlega góðri sölu annarrar kynslóðar Nissan Qashqai jepplingsins og nemur hún nærri 41% sölu allra Nissan bíla í Evrópu. Volkswagen er áfram langstærsti bílasali í Evrópu, með um 12.1% af heildarsölunni. Volkswagen seldi 901.452 bíla á fyrstu 6 mánuðum ársins og jók söluna um 9% frá fyrra ári. 






×