Innlent

Ferðamiðlun: Harmar að ferðamenn hafi misboðið ábúendum á Skjöldólfsstöðum

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðamenn á Íslandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ferðamenn á Íslandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Pjetur
Ferðaþjónustufyrirtækið Ferðamiðlun harmar að einstaklingar í hópi ferðamanna á vegum fyrirtækisins hafi misboðið ábúendum á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal síðastliðinn laugardag með því að létta á sér á landareigninni þegar hópferðabifreið gerði þar stutt stopp til að taka eldsneyti.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu þar sem jafnframt kemur fram að ábúendur hafi verið beðnir afsökunar.

Ingunn Snædal birti mynd af rútu Ferðamiðlunar á Facebook-síðu sinni um helgina og sagði íslenskan fararstjóra fyrirtækisins hafa sent viðskiptavini sína upp í garð til foreldra hennar á Skjöldólfsstöðum til að gera þarfir sínar.

Ferðamiðlun vísar aftur á móti þeirri ásökun á bug að fararstjórinn hafi beint farþegum inn á landareignina í þeim tilgangi.

„Fyrirtækið skipuleggur árlega ferðir um 250 hópa um Ísland og þetta er einstakt tilvik í sögu þess.

Ferðir á vegum Ferðamiðlunar ehf. eru alltaf skipulagðar þannig að farþegar komist á salerni með reglulegu millibili. Sökum eldsneytisskorts var þarna brugðið út af venjunni en Skjöldólfsstaðir eru ekki á meðal áningarstaða í ferðum fyrirtækisins.

Þetta atvik varpar hins vegar ljósi á stærra vandamál, sem ítrekað hefur ratað í fréttir að undanförnu, en það er viðvarandi skortur á salernis- og hreinlætisaðstöðu fyrir ferðamenn um allt land.

Ferðamiðlun ehf. hefur um árabil verið í fararbroddi þeirra sem talað hafa fyrir daufum eyrum um bætta aðstöðu fyrir ferðamenn á Íslandi.  Yfirvöld ferðamála verða að opna augun fyrir knýjandi þörf um úrbætur,“ segir í yfirlýsingunni sem undirrituð er af Úlfari Antonssyni, framkvæmdastjóra Ferðamiðlunar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×