Lífið

Disney ósátt við klámvæðingu Stjörnustríðs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mátturinn virðist ekki vera með grínistanum Amy Schumer eftir að hún sat fyrir í nýjasta tölublaði GQ þar sem hún sést eiga vingott við vélmennið C-3PO íklædd gullbikiníi Leiu prinsessu.

Opinbera Twittersíða Stjörnustríðsmyndanna hefur varla haft undan við að svara æfum aðdáendum sexleiksins sem þykir leikkonan hafa farið langt yfir strikið við vanhelgun sína á gamalkunnum hetjum úr kvikmyndaröðinni.

Forsíðan, þar sem Schumer sést sjúga fingur vélmennisins, fór fyrir brjóstið á mörgum aðdáendum sem flykktust á samfélagsmiðlana og lýstu vanþóknun sinni á þessari klámvæðingu fjölskyldumyndabálksins.

Ekki batnaði það fyrir þá bálreiðu eftir að þeir flettu inn í blaðið því þar má meðal annars sjá grínistann sjúga brodd geislasverðs og liggja berbrjósta uppi í rúmi milli fyrrnefnds C-3PO og R2-D2 með sígarettu í munnvikinu.

Aðstandendur myndanna tístu til óánægðra aðdáenda að þeir hefðu ekki komið að eða lagt blessun sína yfir „óviðeigandi“ notkun Amy Schumer og GQ á persónum úr Stjörnustríðsmyndunum.
Þó virðist vera sem það séu ekki allir á eitt ósáttir við þetta uppátæki Schumer en sjálfur Logi Geimgengill sagði á Twitter að hann hafi orðið spenntur við að sjá hana á forsíðunni og hefði viljað sjá hana í áttundu Stjörnustríðsmyndinni.
Svo hafa margir látið í veðri vaka að C-3PO sé samkynhneigt vélmenni, en það verður látið liggja á milli hluta hér. Hér að neðan má sjá Amy Schumer í rúminu með vélmennunum tveimur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.