Sport

Hrafnhildur setti aftur Íslandsmet en þarf að synda aukasund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. Vísir/Stefán
Hrafnhildur Lúthersdóttir þarf að synda sérstakt aukasund um sæti í úrslitasundi 200 metra bringusundi á HM í Kazan í Rússlandi í dag.

Hrafnhildur setti nýtt Íslandsmet með því að synda á 2.23.06 mínútum í undanúrslitunum en varð jöfn kínversku stelpunni Jinglin Shi í áttunda sæti.

Hrafnhildur var á eftir Jinglin Shi á fyrstu 150 metrum sundsins en náði henni á síðustu 50 metrunum.

Það er bara pláss fyrir átta sundkonur í úrslitasundinu á morgun og þær Hrafnhildur og Jinglin Shi þurfa því að synda aftur eftir síðustu grein í kvöld þar sem sigurvegarinn kemst í úrslitasundið.

Þetta var annað Íslandsmetið hjá Hrafnhildi í dag en hún synti á  2.23.54 mínútum í undanrásum sem var líka nýtt Íslandsmet.

Danska stelpan Rikke Moller Perdersen náði bestum tíma í undanúrslitunum en hún synti á 2:21.99 mínútum og náði betri en bandaríska stelpan Micah Lawrence og japanska stelpan Kanako Watanabe.

Anton Sveinn McKee varð í 13. sæti í undanúrslitum í 200 metra bringusundi en hann synti á 2:10.79 mínútum sem er aðeins slakari tími en þegar hann setti nýtt Íslandsmet í undanrásunum í morgun. Anton Sveinn var þarna að ná sínum besta árangri á HM í 50 metra laug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×