Lífið

„Þetta er ómetanleg reynsla“

Stefán Árni Pálsson skrifar
The Lost Art of Lost Art hópurinn f.v.: Lucy Atkinson leikstjóri, Jamie Finn leikari, Sara Blöndal búninga- og sviðsmyndahönnuður og leikararnir Baker Mukasa, Álfrún Gísladótir og Anna Chrichlow
The Lost Art of Lost Art hópurinn f.v.: Lucy Atkinson leikstjóri, Jamie Finn leikari, Sara Blöndal búninga- og sviðsmyndahönnuður og leikararnir Baker Mukasa, Álfrún Gísladótir og Anna Chrichlow vísir
The Lost Art of Lost Art er meðal þeirra verka sem verður sýnt á Edinborgarhátíðinni í ár. Tvær ungar íslenskar leikhúskonur taka þátt í uppfærslunni, Álfrún Gísladóttir leikari og framleiðandi undir nafninu Raspberry Tart Productions og Sara Blöndal sem sér um leikmynd og búninga.

Álfrún sem nemur leiklist við Royal Central School of speech and Drama vann hin virtu Scottish Daily Mail og UK DRAMA verðlaunin fyrir hugmyndina að uppfærslunni.

„Ég var ákveðin í að taka þátt í Edinborgarhátíðinni áður en ég færi á þriðja og síðasta árið í skólanum. Þetta er ómetanleg reynsla bæði að vera með eigin uppsetningu og eins að fá tækifæri til að sjá svona margar frábærar sýningar á einum stað,” segir Álfrún. Hún segir mikla hvatningu að fá verðlaun sem þessi fyrir utan að þeim hafi fylgt veglegur styrkur sem gerði henni kleift að komast í gott leikhús í Edinborg og að ráða handritshöfund, leikstjóra og Söru Blöndal sem búninga- og leikmyndahönnuð.

Sara útskrifaðist í sumar frá UAL Wimbeldon College of Art London og hefur þegar vakið athygli fyrir verk sín sem leiddi til þess að þrír enskir leikhópar réðu hana til að hanna sviðmynd og búninga fyrir uppfærslur sínar á hátíðinni.

The Lost Art of Lost Art fjallar um Molly og Lee sem eru listaverkaþjófar. Þeim tekst að stela Ópinu eftir Munk en standa þá frammi fyrir nýjum vanda; hvers virði er listaverkið ef þau geta ekki selt það? Þetta er svört og blóðug kómedía sem spyr áleitinna spurninga um hvað gerist þegar græðgin nær tökum á fólki.

Sýningin opnar í Edinborg fimmtudaginn 6. ágúst, í Underbelly, Cowgate en sýningum líkur 30. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×