Innlent

Löng bílaröð á Suðurlandi: Á þriðja tug teknir undir áhrifum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Á sjötta hundrað ökumanna hafa verið látnir blása í áfengismæla lögreglunnar á Suðurlandi í dag á ferð sinni um Suðurlandsveg í átt til Reykjavíkur. Töluverðar tafir urðu á umferð og myndaðist löng bílaröð austur vegna þessa á tímabili.

Að sögn yfirlögregluþjóns á Suðurlandi var lögreglan með póst rétt austan við Hvolsvöll þar sem allir ökumenn voru stöðvaðir og gert að blása.

Alls hafi rúmlega 20 ökumenn reynst undir áhrifum áfengis og var þeim gert að fara í blóðprufu til þess að skera úr um refsingu þeirra. Þeir megi eiga von á háum sektum og jafnvel ökuleyfissviptingum.

Öllum sem fóru um Landeyjahöfn stóð til boða að blása í áfengismæla og því ljóst að þeir sem mældust undir áhrifum við Hvolsvöll voru að koma annars staðar frá.

Umferðin hefur gengið í „slumpum“ í dag í takt við komur Herjólfs frá Vestmannaeyjum að sögn Sveinn Kristjáns Rúnarssonar yfirlögregluþjóns.

Síðasta ferð Herjólfs frá Eyjum er klukkan 23:30 í kvöld og segir Sveinn að lögreglan muni verða við eftirlit eitthvað fram á nótt.

Engin stórvægileg óhöpp hafa orðið í umferðinni á Suðurlandi þar sem af er helgi, ef frá eru talin tvö atviki þar sem bílar hafa farið út af veginum. Annar ók eftir Suðurstrandavegi en hinn var á ferð við Stóru Laxá.



Hér að neðan má sjá myndir af bílaröðinni sem myndaðist seinni partinn í dag.

Vísir/Hugrún
vísir/hugrún



Fleiri fréttir

Sjá meira


×