Erlent

Bróðir Cecils skotinn til bana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jericho, ljónið sem er fjær myndavélinni, var tignarlegur eins og bróðir sinn.
Jericho, ljónið sem er fjær myndavélinni, var tignarlegur eins og bróðir sinn. Vísir/AFP
Jericho, bróðir ljónsins Cecil sem drepið var af tannlækninum Walter Palmer á dögunum, hlaut sömu örlög í dag. Ljónið var skotið til bana af veiðiþjófum í Huwange þjóðgarðinum í Simbabve.

Jericho hafði tekið unga bróður síns í fóstur eftir að tannlæknirinn réð Cecil af dögunum í liðinni viku. Ekki er vitað hverjir stóðu að baki drápinu á Jericho á þessari stundu er fram kemur í frétt Daily Mail um málið.

Formaður dýraverndunarsamtaka Simbabve tilkynnti um dauða Jerichos í dag. „Við erum gjörsamlega niðurbrotin. Við erum ekki með nánari upplýsingar en munum upplýsa um allt þegar við vitum meira,“ sagði formaðurinn Johnny Rodrigues.

Heimamenn í Simbabve höfðu haft miklar áhyggjur af því að Jericho gæti ekki varið unga Cecils og að óvinveitt ljón myndu hrekja þau í burtu af því landsvæði sem Cecil var búinn að leggja undir fyrir sig og afkvæmi sín.

Ljónynjurnar og ungarnir eru nú óvarin eftir dauða Jerichos og talið er að  þau muni þurfa að flytjast búferlum eftir tíðindi síðustu daga.

Cecil var eitt frægasta ljón Afríku, helsta tákn og aðdráttarafl Hwange þjóðgarðsins í Simbabve. Cecil var sérstaklega vinsæll í Simbabve, auðþekkjanlegur á sínum mikla svarta makka. Cecil var þó einnig vel þekktur utan landsteinanna. Vísindamenn við Oxford-háskóla sem rannsökuðu vernd ljóna í Simbabve höfðu m.a. skoðað Cecil í rannsókn sinni.

Tannlæknirinn Walter Palmer hefur viðurkennt að hafa skotið Cecil og hafa yfirvöld í Simbabve farið fram á að hann verði framseldur til landsins vegna drápsins. Þau geta hinsvegar ekki fundið hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×