Lífið

FM95BLÖ setti Herjólfsdal á hliðina

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Á fjórtán árum þá er þetta skemmtilegasta gigg sem ég hef tekið,“ segir Auðunn Blöndal en hann steig á svið í Herjólfsdal í gærkvöldi ásamt Sverri Bergmanni, Agli Einarssyni og Steinda Jr.

Stemningin í dalnum var slík að hefði verið þak á honum hefði það rifnað af. Óstaðfestar gróusögur herma að lætin hafi heyrst alla leið upp á land en við seljum það ekki dýrar en við keyptum það.

„Við Sverrir [Bergmann] ræddum það í morgun að þetta hafi verið það skemmtilegasta sem við höfum gert. Fyrsta lagið sem við tókum var Án þín og allur dalurinn söng með. Það var stórkostlegt,“ segir Auðunn en Sverrir sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2001 með Án þín. Lagið er íslensk útgáfa af Always með Bon Jovi en textinn er eftir Auðunn.

Þjóðhátíðin í ár er tíunda þjóðhátíð Auðuns en í fyrsta skipti sem hann kemur fram. Hann fór fyrst með vinum sínum frá Sauðárkróki árið 2001 til að fylgjast með Sverri flytja sigurlagið fyrir gesti hátíðarinnar.

„Þetta var á listanum yfir hluti sem mig langaði að gera áður en ég dey. Nú er það búið og þetta var algjörlega framar björtustu vonum,“ segir Auðunn að lokum. Hægt er að sjá flutning drengjanna af þjóðhátíðarlagi sínu í spilaranum hér að ofan.

Það var framleiðsluteymið IRIS sem sá um gerð myndbandsins og StopWaitGo-gengið sem sá um útsetningu lagsins. Strákarnir í FM95BLÖ gerðu texta lagsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.