Lífið

„Útlendingar halda allir að við sofum öll með lunda í fanginu frá fæðingu“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Anna Þóra, eigandi Sjáðu, veltir því fyrir sér hvort gleraugun séu út og lundinn inn.
Anna Þóra, eigandi Sjáðu, veltir því fyrir sér hvort gleraugun séu út og lundinn inn. Vísir/Valli
„Ef þetta gengur vel þá er aldrei að vita að maður hætti bara í gleraugnabransanum og byrji að selja lunda,“ segir grínistinn Anna Þóra Björnsdóttir, eigandi gleraugnaverslunarinnar Sjáðu en í tilefni af menningarnótt næstu helgi vendir Anna kvæði sínu í kross og breytir Sjáðu í lundabúð. „Það er nefnilega engin lundabúð á Hverfisgötunni.“

Anna Þóra vildi vekja athygli á búðinni sinni í ár með nýjum hætti en áður.

„Við höfum alltaf verið með á menningarnótt, í tuttugu ár og verið með eitthvað fínt. Í fyrsta skiptið vorum við með sýningu eftir Svavar Guðnason, í fyrra vorum við með Kristján Jóhannsson. En núna á tuttugu ára afmælinu okkar fór ég að hugsa hvað ég geti gert til að ná athygli bæjarbúa alveg full force, manni finnst stundum eins og maður nái ekki almennilega athyglinni. Íslendingar tala ekki um annað en útlendinga og allt sem tengist þeim þessa dagana þannig að það er alveg tilvalið að opna bara fyrstu lundabúðina á Hverfisgötunni.“

Hver verður Sjáðu lundinn?

Posted by Sjaðu on Saturday, August 15, 2015
Aldrei séð lunda með eigin augum

Sjáðu hefur í verslun sinni opnað „photobooth“ eða ljósmyndabás þar sem hægt er að velja sér lundabakgrunn og stilla sér upp með myndinni. Á Menningarnótt mun dómnefnd skera úr um það hvaða lunda-fyrirsæta hlýtur titilinn „Sjáðu lundinn“ og mun sá hinn sami vinna 100 þúsund króna inneign í Sjáðu.

Á menningarnótt nær fjörið hámarki en þá ætlar Anna Þóra að vera þjóðleg með meiru. „Það verður eitthvað þjóðlegt á disk hjá okkur, kannski flatkökur með hangikjöti og Ómar Guðjónsson, gítarleikari ætlar að spila. Og svo verðum við með brekkusöng. Svo er aldrei að vita nema við eigum bland út í landann.“

Anna Þóra hefur sjálf aldrei séð lunda. „Og ég er ekkert viss um að allir Íslendingar hafi séð lunda en útlendingar halda allir að við sofum öll með lunda í fanginu frá fæðingu. Útlendingar spyrja bara: „Já, gefið þið semsagt lunda í skírnargjöf?“ Svo sér maður útlendingafjölskyldur á vappi og börnin öll með lunda undir hendinni. Eins og við kaupum Disney dúkkur handa börnunum okkar.“

En spurð hvernig lundar og gleraugu tengjast svarar Anna: „Ég hef aldrei séð lunda, kannski hef ég bara ekki verið með réttu gleraugun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×