Innlent

Úrsagnir úr Íslandsdeild Amnesty í samræmi við það sem búist var við

Birgir Olgeirsson skrifar
Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty.
Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty. ANNA OG VÍSIR/GETTY
„Miðað við það sem við höfðum heyrt frá félögum okkar áður en við fórum út þá held ég að þetta sé í samræmi við það, hvorki meira né minna,“ segir Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International, um úrsagnir úr samtökunum á Íslandi eftir að alþjóðasamtökin samþykktu á heimsþingi sínu í Dyflinni á Írlandi að leggja til að vændi verði ekki gert refsivert. Íslandsdeild Amnesty studdi ekki þessa tillögu og sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sagði í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 í gær að fjöldaúrsagnir úr samtökunum væru fyrir dyrum á Norðurlöndunum og víðar eftir að þessi tillaga var samþykkt. Um 8.800 manns er í Íslandsdeild Amnesty og einhver hópur sagt úr samtökunum það sem af er degi. Íslandsdeildin vildi ekki gefa upp að svo stöddu hve margir hafa sagt sig úr samtökunum fyrr en það hefur verið tekið saman að fullu.

Anna Lúðvíksdóttir segir stjórn Íslandsdeildarinnar hafa tekið púlsinn á sínum félagsmönnum áður en haldið var á heimsþingið og sé niðurstaðan eins og við var að búast. „Þetta er bara í samræmi við það sem við bjuggumst við.“

En veldur það henni vonbrigðum að félagsmenn kjósi að segja sig úr samtökunum eftir að þessi tillaga var samþykkt?

„Nú verður hver og einn að gera upp við sjálfan sig hvort honum finnst hann eiga samleið með samtökunum. Auðvitað finnst mér leitt að fólk segi sig úr samtökum sem vinna að mannréttindum fólks. Við munum hvergi slaka á í mannréttindabaráttunni þó þessi tillaga hafi farið í gegn, þá þykir mér það auðvitað leitt. En auðvitað verður hver og einn að gera það upp við sjálfan sig hvort hann eigi samleið með viðkomandi samtökum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×