Erlent

Hillary afhendir FBI netþjón sinn

Heimir Már Pétursson skrifar
Hillary Clinton fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrata hefur ákveðið að afhenda bandarísku Alríkislögreglunni (FBI) einkanetþjón hennar sem hefur að geyma tölvupóstsamskipti hennar á meðan hún var utanríkisráðherra.

Það hefur valdið miklu pólitísku moldviðri í Bandaríkjunum að hún hafi notað einkanetþjón en ekki netþjón utanríkisráðuneytisins í embættistíð hennar, þótt fyrirrennari hennar í embætti hafi einnig gert það. Gagnrýnendur hafa fullyrt að netþjónn hennar hafi ekki verið eins öruggur og netþjónn stjórnvalda.

Clinton hefur áður afhent stjórnvöldum þúsundir blaðsíðna af tölvupóstum en ekki netþjóninn sjálfan. Samkvæmt bandarískum lögum eru tölvupóstar ráðherra eign bandaríska ríkisins.

Starfsmenn ríkisins eru hvattir til að nota opinber netföng þótt dæmi séu um að háttsettir embættismenn visti gögn sín annars staðar. Hillary segir að í samráði við lögfræðinga hafi hún eytt öllum póstum sem teldust einkamál áður en netþjóninn verður afhentur stjórnvöldum.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×