Þú nennir engum flækjum sem betur fer svo þú vinnur í lausnum. Lausnin er komin í mörgu og þú skalt búast við miklu meira en þér þykir vera mögulegt.
Þú skalt hafa hærra en sá sem er að röfla í þér því það sem skiptir öllu máli eru tímasetningar í kringum þig. Þú ert að bíða eftir svörum en ekki bíða lengur heldur stattu upp og fáðu svörin.
Þú býrð yfir miklum, miklum sannfæringarkrafti. Láttu fólk sjá að það ert þú sem getur gert það sem þarf að gera. Þú vinnur langbest þannig.
Almættið hefur eitthvað verið að reyna að hægja á þér en þú lætur þér ekki segjast. Þú framkvæmir eitthvað sem gerir stöðu þína sterkari og verður hálfmontinn og getur litið á þig sem fyrirmynd. Já, ég sagði það!
Þið Hrútarnir eruð miklir elskhugar og ástríðan verður að fylla hvern krók og kima, annars þarf bara að sleppa henni. Það eru margir skotnir í þér, elsku Hrúturinn minn, en þeir eru bara svolítið hræddir við að sýna það.
Mottó: Ég ætla að lifa af fullum krafti.
Frægir Hrútar: Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona, Silvía Lovetank listamaður, Marta María Jónasdóttir á Smartlandi, Björgvin Halldórsson söngvari, Kári Stefánsson vísindamaður, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, Hugh Hefner, Birgitta Jónsdóttir Pírati, Anna Svava Knútsdóttir leikkona, Elton John söngvari, Þóra í Atlanta, Sigmar Guðmundsson sjónvarpsmaður, Berglind Pétursdóttir, Steinunn Jónsdóttir, sönkona AmabAdamA, Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365 miðla.