Segðu bara já, sérstaklega ef þú ert hræddur. Það sem á að gerast finnur sér leið. Allir fá sinn skammt af erfiðleikum en mundu að það eru ekki erfiðleikarnir sem munu drepa þig heldur hvernig þú tekst á við þá.
Þú skalt því bera þig vel út mánuðinn í það minnsta og auðvitað alla ævi. Það er þó sérstaklega mikilvægt núna því það er verið að fylgjast með þér og þú vilt að fólk sjái þínar bestu hliðar, það gæti verið í vinnunni, skólanum, íþróttum eða ástinni. Þú veist aldrei hver það er sem er að koma og breyta lífi þínu!
Taktu vini þína með þér, þá allra bestu. Það eru þeir sem þú getur hringt í klukkan fjögur að nóttu til og þeir elska þig samt. Þú ert eins vinamargur og þú vilt, þannig ertu bara. Þér finnst alls ekki vont að vera einn, þér finnst miklu verra að vera með einhverjum sem lætur þér líða eins og þú sért aleinn.
Elsku Fiskurinn minn, þú þarft að átta þig á að vorkunn er ekki vinátta og henni fylgir ekki góð tíðni og þú þarft ekki alltaf að redda öllu fyrir alla.
Það er stöðuhækkun í lífinu framundan og þú gerir einhverja vitleysu en úr því kemur skemmtileg saga sem þú verður svo hamingjusamur með. Mundu bara að sem þú trúir á af öllu hjarta verður raunveruleikinn þinn.
Mottó: Grasið er stundum grænna annars staðar.
Frægir Fiskar: Elísabet Ásberg listamaður, Diana Omel listamaður, Beggi hans Pacasar, Baltasar Kormákur leikstjóri, Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður, Albert Einstein, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Vigdís Hauksdóttir þingkona, Ilmur Kristjánsdóttir leikkona, Svavar Örn engill, Páll Óskar poppstjarna.