Innlent

Fyrri greining sýndi líka lakari árangur

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Almar Miðvík Halldórsson
Almar Miðvík Halldórsson
Árið 2013 var greining gerð á vegum Menntamálastofnunar á árangri byrjendalæsis sem gaf svipaða niðurstöðu og kom út úr greiningu sem birtist í Fréttablaðinu í síðustu viku og kom frá stofnuninni.

Einkunnir barna í íslensku, lesskilningi og stærðfræði í skólum sem hafa tekið upp byrjendalæsi hefur hrakað samkvæmt henni.

Skólaþróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, sem hafði forystu í að innleiða kennsluaðferðina í um 80 grunnskóla á landinu segja niðurstöðurnar villandi.

Forsvarsmenn Menntamálastofnunar segjast hissa á þeim athugasemdum sem Háskólinn á Akureyri og aðstandendur byrjendalæsis hafa gert við greininguna.

„Árið 2013 kynntum við fyrir Háskólanum á Akureyri greiningu sem við gerðum á byrjendalæsi. Þær niðurstöður gáfu sömu vísbendingu um að aðferðin sé ekki að skila tilætluðum árangri. Við erum mjög hissa á þessum athugasemdum frá Háskólanum á Akureyri og skólaþróunarmiðstöðinni þar vegna þess að þau áttu frumkvæði að þessari greiningu sem var gerð 2013. Þá höfðum við miklu færri skóla, þrettán talsins, og fáa árganga, en þar kom þetta sama fram sem við kynntum fyrir þeim. Seinni greiningin, sem birtist nú á dögunum, nær til þrefalt fleiri skóla og mörg þúsund nemenda. Þar er niðurstaðan líka skýrari,“ útskýrir Almar Miðvík Halldórsson hjá Menntamálastofnun og stendur við þá greiningu sem stofnunin sendi út í síðustu viku.

„Þetta var það sem aðstandendur byrjendalæsis voru að bíða eftir, að fá frá okkur svona stórt mat þar sem væri alveg áreiðanlegt að þessi vísbending um að aðferðin væri ekki að gefa nægilega góða raun stæðist. Og hún stenst, fullkomlega. Meira ef eitthvað er.“

Birna María Svanbjörnsdóttir
Birna María Svanbjörnsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, segir grein­inguna frá Menntamálastofnun villandi. Hún segir hana sýna fram á fylgni­samband en ekki orsakasamband. „Hún sýnir ekki það sem skiptir máli fyrir starfið,“ segir Birna María. „Árangurinn er metinn reglulega með innra mati í skólunum og á vettvangi skólastarfs en einnig á öðrum vettvangi af hópi fræðimanna frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands.“ Niðurstöður fræðimannanna liggja ekki fyrir.

„Auðvitað eru aðferðir í sífelldri þróun og vissulega þarf að rannsaka þær líkt og ráðherra menntamála bendir á. En ef á ekki að prófa aðferðir í skólanum, hvar þá?“

En eru ekki 80 grunnskólar dálítið vel í lagt í tilraunaverkefni?

„Mikilvægt er að árétta að sú greining sem liggur til grundvallar minnisblaði Menntamálastofnunar nær til 38 skóla sem byrjuðu að innleiða byrjendalæsi á mismunandi tímum; tveir skólar 2005, tveir til viðbótar 2006, fimm árið 2007 og fimm árið 2008 og þannig koll af kolli. Árið 2010 voru komnir inn þeir 38 skólar sem greining minnisblaðsins byggir á. Eftir 2010 hafa bæst við 42 skólar. Allt eru þetta skólar sem óskað hafa eftir þátttöku af því þeir sáu ávinning af starfinu eftir að hafa kynnt sér það hjá öðrum skólum og fylgst með þróun verkefnisins.“

Von er á frekari gögnum um málið frá Menntamálastofnun í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×