Lögregla í Kanada hefur upplýst að tveir viðskiptavinir síðunnar Ashley Madison hafa fyrirfarið sér í kjölfar þess að upplýsingar um viðskiptavini síðunnar var lekið á netið.
Talsmaður lögreglu staðfesti á fréttamannafundi fyrr í dag að Avid Life Media hafi boðið 500 þúsund dala fé fyrir hvern þann sem veitir upplýsingar sem leiðir til handtöku og ákæru þeirra sem ábyrgð bera á lekanum.
Brotist var inn í tölvukerfi Avid Life Media þann 12. júlí síðastliðinn. Í gögnunum sem lekið var má finna ítarlegar persónuupplýsingar milljóna manna. Full nöfn, heimilisföng, símanúmer, hluti úr kreditkortanúmerum, netföng og ýmislegt fleira er meðal þess sem finna má í gögnunum.
Bryce Evans, talsmaður lögreglu, segir málið eitt stærsta sinnar tegundar í heiminum.
