Innlent

Lögregla leitar enn ábendinga um líkfundinn í Laxárdal

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Á kortinu má sjá hvar göngufólk gekk fram á lík ungs karlmanns í síðustu viku.
Á kortinu má sjá hvar göngufólk gekk fram á lík ungs karlmanns í síðustu viku. Vísir/Loftmyndir.is
Lögregla vinnur enn úr þeim ábendingum sem borist hafa vegna líkfundar í Laxárdal í síðustu viku. Enn er beðið niðurstaðna úr réttarkrufningu en hún var framkvæmd á miðvikudaginn síðastliðinn.

Því hefur ekki enn verið hægt að varpa ljósi á hver ungi maðurinn var. Eins og fram hefur komið hefur lögregla þó útilokað báða mennina sem eru á lista lögreglu yfir einstaklinga sem saknað er á Íslandi. Þeir eru Matthías Þórarinsson og þýski ferðamaðurinn Christian Mathias Markus.

Líkfundarmálið er unnið í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld. En göngufólk gekk fram á lík ungs karlmanns við Sauðdrápsgil í Laxárdal í Nesjum á þriðjudag í síðustu viku.

Sjá einnig: Líkfundur í Laxárdal í Nesjum

Lögregla segist í samtali við Vísi ekki geta tjáð sig um hvernig andlát mannsins bar að enda sé allt á huldu um það á meðan niðurstöður liggja ekki fyrir. Þá getur lögregla ekki gefið upplýsingar um hvort þeir hafi grun um hvaðan maðurinn kom eða hver hann var.

Enn er biðlað til þeirra sem gætu gefið upplýsingar um málið að hafa samband við lögreglu í síma 8424250.

Kennslanefnd hefur gefið út að líkið sé af ungum karlmanni, um það bil 186 sentimetrar á hæð, með ljóst axlasítt hár klætt í svarta strigaskó með hvítri stjörnu á hlið, dökkbláar íþróttabuxur og hettupeysu með áletrun að framan „QUICKSILVER“.

Lögreglan segir að ætla megi að maðurinn hafi látist fyrir einhverjum mánuðum síðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×