Innlent

Margir velta fyrir sér formannsstöðu

Snærós Sindradóttir skrifar
Guðmundur Steingrímsson, Heiða Kristín og Óttarr á meðan allt lék í lyndi.
Guðmundur Steingrímsson, Heiða Kristín og Óttarr á meðan allt lék í lyndi. Mynd/BF
„Ég er ekkert búin að ákveða neitt en ég neita því ekkert að þetta hefur verið rætt,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. Á laugardag varð ljóst að formaður flokksins, Guðmundur Steingrímsson, hygðist segja af sér embættinu.

Helst hefur verið rætt um að Heiða Kristín Helgadóttir, stofnandi og varaþingmaður Bjartrar framtíðar, ætti að fara í framboð til formanns. Hún segir að hennar megináhersla sé á framgang kvenna. „Ég vil sjá konur þarna inni taka miklu meira pláss og forystu. Sama hvað menn segja gerist það ekki oft nema það sé mjög fókuserað.“

Það er þá ákveðnum vandkvæðum bundið að formaður sé ekki sitjandi þingmaður. „Það sem ég held að flokkurinn þurfi sé að tala það út hvað hann stendur fyrir.“

Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, segist ekki hafa persónulegan metnað í að verða formaður. „Á sama tíma heyri ég alveg umræðuna og ég veit að ég sem kjörinn þingmaður fyrir flokkinn þarf að taka ábyrgð á því og flokknum minum. Ég get ekki sagt að ég sé í einhverjum startholum að opna kosningaskrifstofu.“ Hann segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort flokkurinn taki upp það fyrirkomulag að reglulega verði skipt um formann. „Ég er alveg opinn fyrir því að taka þátt í að taka ábyrgð á Bjartri framtíð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×