Innlent

Fær ekki að leiða hundrað pókerspilara fyrir dóm

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þríeykið er ákært fyrir að hafa rekið fjárhættuspil í atvinnuskyni og sér til ávinnings.
Þríeykið er ákært fyrir að hafa rekið fjárhættuspil í atvinnuskyni og sér til ávinnings. Vísir/Anton
Kröfu verjenda eins þremenninganna í Poker and Play-málinu svokallaða um að leiða fram alls rúmlega hundrað vitni í málinu var í dag hafnað í Hæstarétti. Upphafleg áform fólu í sér að rúmlega fjórðungur þess fjölda, alls 26 einstaklingar, myndu bera vitni við aðalmeðferðina.

Þríeykið er ákært fyrir að hafa rekið fjárhættuspil í atvinnuskyni og sér til ávinnings, sem og fyrir stórfellt peningaþvætti með því að hafa tekið við, nýtt eða aflað sér ávinnings, samtals að fjárhæð um 171 milljón króna.

Í greinargerð Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar, verjenda eins sakborninganna í málinu, var þess krafist að ákæruvaldið boðaði 92 einstaklinga sem vitni samkvæmt nafnalista. Krafðist verjandinn að þessir 92 einstaklingar bæru vitni, auk þeirra 28 sem saksóknari hafði áður boðað í vitnaleiðslur. Fjöldi vitna í málinu hefði því verið á annað hundrað en til samanburðar má nefna að um 50 vitni voru í stóra markaðmisnotkunarmáli Kaupþings.

Saksóknari féllst á að boða fjóra af þessum lista en hinum 88 var hafnað.

Verjandinn hélt því fram að vitnisburður vitnanna væri mikilvægur enda hafi þau öll verið meðlimir í spilafélaginu og gætu upplýst um starfið í klúbbnum og aðkomu þeirra að því.

„Með vitnaleiðslunum væri fyrirhugað að sýna fram á að ekki hefðu verið seldar veitingar á vegum félagsins og hefðu félagsmenn ekki innt af hendi greiðslur vegna rekstrar þess,” segir í úrskurði Hæstaréttar. 

Saksóknari sagði hins vegar að ekki hafi verið færð viðhlítandi rök fyrir því að það geti haft þýðingu fyrir málsvörn hans að leiða um 90 vitni til viðbótar við aðalmeðferðina. Til stæði að 28 einstaklingar bæru vitni, þar af hafi 23 verið meðlimir í spilafélaginu og þá hafi tíu þeirra einnig verið á vettvangi þegar lögreglan réðst í húsleit í klúbbhúsi félagsins í Skeifunni.

Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur féllust á þessi rök saksóknarans. Tilgangslaust væri að leiða á annað hundrað vitna fyrir dóminn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×