Viðskipti innlent

Kaupréttur starfsmanna Símans samþykktur

Sæunn Gísladóttir skrifar
Orri Hauksson er forstjóri Símans.
Orri Hauksson er forstjóri Símans.
Kaupréttaráætlun starfsmanna Símans á hlutafé sem nær til allra starfsmanna fyrirtækisins var í dag samþykkt. Í atkvæðagreiðslu á hluthafafundi mótmælti enginn og einn sat hjá.

Samkvæmt áætluninni geta allir starfsmenn Símans keypt hlutafé fyrir allt að 600 þúsund krónur á ári í þrjú ár. Fyrri tillaga hljóðaði svo að starfsmenn gætu keypt hlutafé í fimm ár en vegna gagnrýni sex lífeyrissjóða, sem samanlagt eiga 15% hlut í Símanum var tillögu stjórnar Símans breytt á þann veg að gildistími kaupréttar starfsmanna styttist úr fimm árum í þrjú ár. Virði kaupréttarins nemur 1,2 milljörðum króna, samanborið við um tvo milljarða áður.

Fram kom á fundinum að áætlunin með kaupréttinum er að tengja saman hagsmuni alls starfsfólks og hluthafa til lengri tíma. Rétturinn hefur það markmið að auka tryggð starfsfólks. Síminn hefur þurft að eiga við mikla starfsmannaveltu á tímabili og mikla samkeppni um lykilfólk, stærsti einstaki kostnaðarliður Símans er launakostnaður.

Samhliða breytingu á kaupréttaráætlun verður heimild til þess að hækka hlutafé lækkuð niður í 510 milljónir króna, í stað 850 milljónir króna, vegna styttingar áætlunar um 2 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×