Bíó og sjónvarp

Everest sýnd á Stöð 2

Nýjasta mynd Baltasars Kormáks, Everest, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í gær.
Nýjasta mynd Baltasars Kormáks, Everest, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í gær. Vísir/Getty
Stöð 2 hefur gert langtímasamning við bandaríska kvikmyndaframleiðandann NBC Universal um kaup á kvikmyndum. Með samningnum tryggir Stöð 2 sér meðal annars sýningarrétt á stórmynd Baltasars Kormáks, Everest, auk fjölmargra stórmynda á borð við 50 Shades of Grey, Theory of Everything, Furious 7 og Jurassic World sem verða á dagskrá Stöðvar 2 og Bíóstöðvarinnar.

„NBC Universal hefur verið mikilvægur samstarfsaðili Stöðvar 2 í fjölda ára og það er ánægjulegt að tryggja áframhald á því góða samstarfi,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla.

„Styrkleikar Stöðvar 2 eru óumdeildir, við erum leiðandi í innlendri dagskrárgerð og verðum nú þriðja veturinn í röð með íslenskan þátt á hverju kvöldi. Þá er Stöð 2 heimili HBO á Íslandi en HBO býður upp á besta sjónvarpsefni í heimi og að lokum eru kvikmyndir stór þáttur í dagskrá okkar og þessi samningur við NBC Universal gefur okkur aðgang að frábærum myndum sem verða sýndar í vetur.“

Kvikmyndin Everest var opnunarmynd kvikmyndarhátíðarinnar í Feneyjum í gærkvöldi. Myndin skartar meðal annars leikurunum Jake Gyllenhaal, Keira Knightley og Josh Brolin í aðalhlutverkum en hún segir af leiðöngrum fjallgöngumanna árið 1996 um fjallið. Leiðangrarnir urðu illa úti í ofsaveðri með þeim afleiðingum að átta menn fórust.

Kvikmyndagagnrýnandi The Hollywood Reporter, Todd McCarthy, fór fögrum orðum um Everest í umfjöllun um myndina og hældi Baltasar og sagði honum hafa tekist vel til.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.