Erlent

Sakaður um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu

Samúel Karl Ólason skrifar
Bosco Ntaganda í dómssal í morgun.
Bosco Ntaganda í dómssal í morgun. Vísir/EPA
Réttarhöldin yfir uppreisnarleiðtoganum Bosco Ntaganda eru nú hafin í Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag. Hann er sakaður um stríðsglæpi sem og glæpi gegn mannkyninu sem hann mun hafa framið í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Meðal ákæruliða eru morð, nauðgun og notkun barna í hernaði. Ntaganda hefur neitað öllum ákæruliðunum sem alls eru 18.

Samkvæmt BBC hafði hans verið leitað í nokkur ár áður en hann gaf sig fram í sendiráði Bandaríkjanna í Rúanda árið 2013.

Hinn 41 árs gamli Ntaganda, sem einnig gekk undir nafninu Tortímandinn (The Terminator), barðist fyrir mismunandi uppreisnarhópa sem og herinn í Kongó. Þar á meðal barðist hann í Union of Congolese Patriots uppreisnarhópnum. Sá hópur var leiddur af Thomas Lubanga, sem er eini maðurinn sem hefur verið sakfelldur í Alþjóðlega sakamáladómstólnum.

Ntaganda er sakaður um að hafa myrt minnst 800 borgara í árásum á nokkur þorp árið 2002 og 2003. Auk þess er hann sagður hafa nauðgað fjölda stúlkna sem hann hafði neitt í hernað.

Saksóknarar stefna á að kalla rúmlega 80 vitni fyrir dóminn og þar á meðal fyrrverandi barnahermenn Ntaganda. Talið er að réttarhöldin muni standa yfir í nokkra mánuði.

Hér að neðan má sjá myndband sem Human Rights Watch gerði um meinta stríðsglæpi Ntaganda þegar hann var í felum. Vert er að vara við því að myndbandið gæti vakið óhug áhorfenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×