Erlent

Páfinn mættur til Kúbu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frans páfi og Raul Castro, forseti Kúbu.
Frans páfi og Raul Castro, forseti Kúbu. Vísir/EPA
Frans páfi er mættur til Kúbu en þetta er fyrsta heimsókn hans til eyjunnar. Forseti Kúbu, Raul Castro, tók á móti Frans við komuna til höfuðborgarinnar Havana en páfinn kallaði eftir því að kirkjan í Kúbu fengi frelsi og þau fjárráð sem hún þarf svo starf hennar geti blómstrað.

Hann mun verja fjórum dögum í Kúbu áður en hann fer til Bandaríkjanna. Frans er fyrsti páfinn sem ættaður er frá Suður Ameríku en í frétt breska ríkisútvarpsins BBC af heimsókn hans til Kúbu er hann sagður hafa átt þátt í að liðka fyrir samskiptum á milli Bandaríkjanna og Kúbu.

Vatíkanið sendi frá sér tilkynningu á fimmtudag þar sem yfirvöld þar sögðust vonast eftir að heimsókn páfans til Kúbu myndi leiða til aukins frelsis og mannréttinda á eyjunni.

Bandarísk yfirvöld tilkynntu í gær að þau myndi slaka á höftum á viðskipti og ferðalög til Kúbu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×