Erlent

Þrettán handteknir til viðbótar vegna flótta eiturlyfjabaróns

Birgir Olgeirsson skrifar
Guzman slapp úr Altiplano-fangelsinu í Mexíkó með því að smeygja sér í gegnum holu í sturtuklefa fangelsisins. Þaðan komst hann í rúmlega kílómetra löng göng sem voru búin lýsingu og loftræstikerfi og beið hans sérútbúið bifhjól.
Guzman slapp úr Altiplano-fangelsinu í Mexíkó með því að smeygja sér í gegnum holu í sturtuklefa fangelsisins. Þaðan komst hann í rúmlega kílómetra löng göng sem voru búin lýsingu og loftræstikerfi og beið hans sérútbúið bifhjól. Vísir/EPA
Mexíkósk yfirvöld hafa handtekið þrettán til viðbótar í tengslum við rannsóknina á fangelsisflótta eiturlyfjabarónsins Joaquin „El Chapo" Guzman. Hann er sagður einn valdamesti glæpamaður heimsins í dag en hann er eftirlýstur í Mexíkó og Bandaríkjunum fyrir glæpi sína. Hann slapp úr Altiplano-fangelsinu í Mexíkó 11. júlí síðastliðinn með því að smeygja sér í gegnum holu í sturtuklefa fangelsisins. Þaðan komst hann í rúmlega kílómetra löng göng sem voru búin lýsingu og loftræstikerfi og beið hans sérútbúið bifhjól.

Sjá einnig: Sjáðu göngin sem hinn smávaxni notaði til að flýja

Þetta var í annað skiptið sem hann nær að strjúka úr fangelsi. Síðast var það árið 2001 en það tók yfirvöld í Mexíkó þrettán ár að hafa upp á honum.

Bandaríska fréttastofan CNN segir fjölmarga hafa verið grunaða um að hafa aðstoðað Guzman við flóttann en sex dögum eftir að hann slapp úr fangelsinu voru sjö starfsmenn fangelsisins handteknir.

Eftir að Guzman hvarf úr augsýn eftirlitsmyndavéla í sturtuklefanum liðu átján mínútur áður en fangaverðir fóru og athuguðu málið. Nærri því hálftími leið frá þeirri stundu þar til tilkynnt var um flótta hans.

Grunur innanríkisráðuneytisins í Mexíkó beindist fljótlega að starfsmönnum fangelsisins en CNN segir rannsóknarblaðamanninn AnabelHernandez hafa komist að því að yfirvöld hefðu haft fjölda vísbendinga um að Guzman væri að undirbúa flótta.

Til að mynda var vitað frá því í mars að aðilar á vegum Guzmans hefðu skoðað teikningar af fangelsinu. Þá höfðu fangar kvartað yfir miklum hávaða sem væri í líkingu við stórframkvæmdir.

Hernandez hafði komist yfir yfirheyrslugögn í tengslum við rannsókn á flóttanum en CNN segir embætti ríkissaksóknara Mexíkó hafa neitað að tjá sig um málið.

Guzman er leiðtogi Sinaloa-glæpasamtakanna sem eru sögð standa að baki miklum innflutningi á kannabisefnum, kókaíni og heróíni til Bandaríkjanna. Bandaríska tímaritið Forbes lagði eitt sinn mat á auðæfi Guzman sem voru talin nema einum milljarði Bandaríkjadala.

Yfirvöld hafa heitið 3,8 milljónum dala fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×