Erlent

Grísku þingkosningarnar: Syriza mælist með minniháttar forskot í könnunum

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Syriza.
Alexis Tsipras, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Syriza. Vísir/EPA
Síðustu kosningafundirnir fyrir grísku þingkosningarnar voru haldnir í dag, en Grikkir ganga að kjörborðinu á sunnudag.

Í frétt BBC kemur fram að skoðanakannanir bendi til þess að mjótt verði á munum milli vinstriflokksins Syriza, flokks Alexis Tsipras, og hægriflokksins Nýs lýðræðis. Því bendi allt til þess að samsteypustjórn verði mynduð að loknum kosningum.

Tsipras sagði af sér embætti forsætisráðherra í síðasta mánuði eftir að hafa fengið samning Grikklandsstjórnar við lánardrottna sína samþykktan í gríska þinginu. Sagði hann nauðsynlegt fyrir flokkinn og hann sjálfan að sækja sér nýtt umboð.

Hver svo sem mun taka við embætti forsætisráðherra að loknum kosningum mun þurfa að framfylgja samningnum sem Grikkir gerðu við Evrópusambandið um aðhaldsaðgerðir í skiptum fyrir frekari lán.

Stuðningsmenn Tsipras komu saman í miðborg Aþenu í dag og sagði forsætisráðherrann fyrrverandi samkomuna senda skilaboð staðfestu og sigurs. „Á sunnudag stöndum við frammi fyrir örlagaþjóðaratkvæðagreiðslu – að binda enda á gamalt kerfi stjórnmála sem verndar ólígarka og spillingu,“ sagði Tsipras á Twitter-síðu sinni.

Vangelis Meimarakis, leiðtogi Nýs lýðræðis, réðst hins vegar harðlega á Syriza og sakaði flokkinn um „fölsk loforð“ í aðdraganda síðustu kosninga þar sem flokkurinn hét því að binda enda á aðhaldsaðgerðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×