Innlent

Gagnrýnir Icelandair fyrir auglýsingar

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Sigríður Ása Harðardóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands
Sigríður Ása Harðardóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands
Formaður Flugfreyjufélags Íslands, Sigríður Ása Harðardóttir, segir Icelandair mismuna með því að setja aldurstakmarkanir í störf flugliða en fyrirtækið hefur hafnað reyndum umsækjendum um starf á þeim forsendum að þeir séu fæddir fyrir 1980.

„Við héldum að þetta væri liðin tíð,“ segir hún en í stétt flugfreyja hefur verið tekist á um aldur. Aldurstakmarkanir voru við lýði í faginu allt til ársins 1973. Þá voru felldar niður aldurstakmarkanir í samningum við Loftleiðir og fyrsta kynslóð flugfreyja og flugþjóna gat gert starfið að ævistarfi.

„Ef fólk er í líkamlegu formi til að geta unnið um borð þá skil ég ekki af hverju aldur er atriði,“ segir Sigríður.

Flugfreyjufélag Íslands hefur beina aðild að ASÍ og styður sambandið í baráttu þess við að fá lögleidda ESB-tilskipun sem bannar aldursmismunun. Magnús Nordal, lögfræðingur ASÍ, sagði Icelandair verða að svara því hvers vegna þeir setji tiltekin aldursmörk við ráðningu flugliða. Sambandið hefur barist fyrir því að fá tilskipunina innleidda í fimmtán ár. Magnús segir þó að þrátt fyrir að nýja lagasetningu skorti þá brjóti bein og óbein mismunun á grundvelli aldurs ákvæði 65. greinar stjórnarskrár.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, segir ástæðuna litla veltu starfsmanna og reynt sé að jafna aldursdreifingu í hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×